Líf í borgarholtsskóla

10/03/2023 | Ritstjórn

Samstarf Borgarholtsskóla og MÍT

Nemendur í grafískri hönnun á listnámsbraut Borgarholtsskóla hafa átt í samstarfi við nemendur í MÍT, Menntskólanum í tónlist núna á vorönn. Nemendur í grafískri hönnun hafa hannað kynningarefni fyrir vortónleika MÍT sem haldnir verða í hátíðarsal FÍH 24. og 25. mars. Tónleikarnir eru að þessu sinni tileinkaðir tónlistarkonunni Amy Winehouse en hún hefði orðið 40 ára í ár hefði hún lifað.

Samstarf milli skólanna felst í því að nemendur á öðru ári í grafískri hönnun í Borgó hanna kynningarefni og nemendur í áfanga í viðburðarstjórnun í MÍT sjá um kynningu á tónleikunum. Þrjár tillögur af veggspjöldum, sem þóttu skara fram úr, voru valdar. Valið var mjög erfitt því margar framúrskarandi tillögur voru í boði. Sú tillaga sem þó að lokum var valin er hönnuð af John Berniel Gavilo Quirona. Tillaga númer tvö var hönnuð af Alexöndru Ýr Harðardóttur og tillaga þrjú var hönnuð af Snærúnu Ynju Hallgrímsdóttur Smith. Nemendur í grafískri hönnun nutu leiðsagnar Kristínar Maríu Ingimarsdóttur, kennara í garfískri hönnun en kennari í viðburðarstjórnun í MÍT er Gunnhildur Einarsdóttir.

Öll veggspjöldin munu verða til sýnis í húsnæði MÍT/FÍH þegar tónleikarnir verða haldnir og standa eitthvað áfram.

Samstarf skólanna hófst fyrir þremur árum síðan og er komin góð reynsla á það. Á þessum vortónleikum MÍT má oft sjá og heyra efnilega nemendur sem eru að taka sín fyrstu skref í tónlistarheiminum á Íslandi og sama má segja um ungu hönnuðina úr Borgó, sem líka eru að taka sín fyrstu skref á sínu sviði.