Líf í borgarholtsskóla

24/11/2025 | Ritstjórn

Heimsókn leikskólabarna

Nemendur heimsækja sprautuklefann

Nemendur heimsækja sprautuklefann

Í vikunni fengu bíltæknibrautir skólans krúttlega heimsókn. Um var að ræða nemendur á leikskólanum Hofi í Laugardal. Elsti hópur barnanna í leikskólanum kallast Flakkarar og eins og nafnið ber með sér flakka þau um höfuðborgarsvæðið yfir veturinn. Fyrir áramót er þemað framtíðin og vinnustaðir en eftir áramót eru listir og menning á dagskránni. Nemendur segja frá ýmsum störfum sem þau vilja sinna í framtíðinni og í kjölfarið finna leikskólakennarar vinnustaði sem passa. Í ár var mikill spenningur fyrir bílum og þar af leiðandi lögðu fjórir leikskólakennarar í langferð með 22 nemendur í vikunni. Þau skoðuðu bílaskála Borgarholtsskóla og fengu kynningu frá starfsfólki og nemendum.

Það var erfitt að sjá hverjir skemmtu sér betur, gestirnir eða gestgjafarnir. Börnin og kennarar þeirra voru himinlifandi með heimsóknina og er þeim þakkað kærlega fyrir komuna. Starfsfólki í bíliðngreinum og nemendum þeirra er þakkað fyrir að taka vel á móti krökkunum og fyrir að kynna þeim starfsemi deildarinnar.