Líf í borgarholtsskóla

19/09/2023 | Ritstjórn

Glerbúrið/fiskabúrið vígt

Nemendur ásamt skólastjórnendum og kennurum

Nemendur ásamt skólastjórnendum og kennurum

Nemendur á þriðja og síðasta ári á listnámsbraut, grafískri hönnun, hafa nýlokið við að mála vegglistaverk í Glerbúrið, en það er aðstaða inn af matsal nemenda þar sem þau geta hvílt sig eða leikið sér á milli kennslustunda. Eftir að hafa velt verkefninu fyrir sér og rætt hugmyndir fram og til baka tóku nemendurnir þá ákvörðun að hafa fiskabúrs-þema og máluðu þau ýmsar verur sem hugsanlegt væri að finna í fiskabúri á veggina. Eins og meðfylgjandi myndir sýna er útkoman skemmtileg og ansi lífleg.

Verkið mun standa uppi í þrjú ár en hugmyndin er sú að þriðja árs nemar í grafíkinni fái alltaf tækifæri til að búa til vegglistaverk í skólanum sínum og hafa þrír veggir/rými verið tekin frá. Allir þekkja verkið sem er á vegg gasgeymslu skólans – Blómstrað í Borgó – en að auki hafa glerbúrið og gangur milli bíla- og málmskála verið tekin frá fyrir listafólkið.

Örn Tönsberg, vegglistamaður, veitti nemendum tilsögn ásamt kennurum þeirra í grafíkinni, þeim Raggý, Stínu Maju og Stínu Þóru. Í tilefni verklokanna var listafólkinu boðið til pítsuveislu.