10/02/2023 | Ritstjórn
Skóhlífadagar 2023

Dagana 9. og 10. febrúar voru skóhlífadagar í Borgarholtsskóla. Skóhlífadagar eru þemadagar skólans og eru þeir haldnir á vorönn. Skóhlífadagarnir draga nafn sitt af því að á fyrstu árum skólans voru allir nemendur í bláum skóhlífum og setti það sterkan svip á ganga skólans.
Á skóhlífadögum er hefðbundin kennsla lögð niður en í stað hennar er boðið upp á fjölbreytt námskeið. Skólaskylda er þessa daga og verður hver nemandi að velja sér þrjú námskeið til að mæta á.
Námskeiðin voru fjölbreytt að venju en til dæmis var boðið upp á jeppaferð, borðspil, teikninámskeið, kvikmyndasýningar á ýmsum tungumálum, matreiðslunámskeið með Eurovision þema, fuglaskoðun, badminton, skauta og prjónanámskeið. Auk þess var farið í heimsóknir á Þjóðminjasafnið, Landnámssýninguna og Listasafn Reykjavíkur.
Skóhlífadagar eru kærkomin tilbreyting frá hefðbundnu skólastarfi. Þeim lýkur svo með Glæsiballinu, árshátíð nemenda, sem er nú haldin í fyrsta sinn í nokkur ár.
Myndagallerí


