Líf í borgarholtsskóla

14/09/2023 | Ritstjórn

Ráðherra vígði nýja pípulagningadeild

Ráðherra, skólameistari, deildarstjóri og nemendur klippa á "borðann"

Ráðherra, skólameistari, deildarstjóri og nemendur klippa á "borðann"

„Þetta er fyrsta skrefið. Ég segi skref því inn í þessum áformum er að stækka Borgarholtsskóla. Við ætlum að hanna og greina það á næsta ári hvernig sú viðbygging á að vera og nota árið 2025 til að framkvæma,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, meðal annars í ræðu sinni þegar hann vígði nýja pípulagningadeild Borgarholtsskóla við Bæjarflöt í Grafarvogi.

Skólinn kallar deildina Skarpaskjól en Skarphéðinn Skarphéðinsson, deildarstjóri í pípulögnum, hefur haft veg og vanda af því að gera aðstöðuna klára á aðeins nokkrum mánuðum. Ásmundur benti á að deildin minnti lítið á hina hefðbundnu kennslustofu. Þetta væri sérhæft húsnæði fyrir kennsluna sem þarna færi fram, eitthvað sem honum hugnaðist vel.

„Það er ánægjulegt að sjá þetta fara af stað. Ég hef mikinn áhuga á eflingu starfsnáms og við ætlum að mæta þeirri eftirspurn sem er með aðgerðum,“ sagði hann og bætti við. „Hér er sérhæfð aðstaða. Þetta er ekki einföld kennslustofa eins og við þekkjum hana. En við verðum að geta mætt því fjárhagslega – ekki bara að byggja heldur líka eiga fjármagn til að mennta nemendur og skólinn fái það fjármagn sem þarf til þess,“ sagði ráðherra.

Ársæll Guðmundsson, skólameistari Borgarholtsskóla, tók einnig til máls og sagði að þau 30 ár sem hann hefði starfað innan skólakerfisins hefði hann barist lengi fyrir því að hugað sé að kennsluhúsnæðinu því allt of oft hefðu Íslendingar sett list-, verk- og starfsnám í húsnæði sem hannað væri til bóknáms.

„Allir birgjar og atvinnulífið hafa tekið okkur opnum örmum og styrkt skólann með miklum velvilja. Staðið við bakið á okkur sem erum að mennta fólk í iðngreinum. Það skiptir öllu máli,“ sagði Ársæll en atvinnulífið hefur stutt vel við bakið á pípulagningadeildinni í formi gjafa og velvildar.

Að því loknu fékk Ásmundur að spreyta sig á pípulögnum og klippti svo loks á pípulagningaborða með Framsóknargrænum klippum og vígði nýja deild skólans undir dynjandi lófataki gesta. Hann bætti við að hann væri sérstaklega ánægður með litinn á klippunum.