Líf í borgarholtsskóla

01/12/2022 | Ritstjórn

Nemendur heimsóttu varðveislu- og rannsóknarmiðstöð Þjóðminjasafnsins

Nemendur í sögu (SAG3A05) heimsóttu varðveislu- og rannsóknarmiðstöð Þjóðminjasafnsins í Hafnarfirði á dögunum. Nemendur fengu að kynnast starfinu sem fer þar fram en á móti hópnum tóku þrír sérfræðingar rannsóknarmiðstöðvarinnar og skiptu hópnum niður í þrjá hópa.

Einn hópurinn fékk að kíkja inn á skrifstofu sérfræðings í þrívíddarskönnunum og skannaði hún mannskjálka fyrir hópinn til að sýna hvernig skönnunin virkar. Síðan sýndi hún nemendum afraksturinn í tölvunni en stefnan er að skanna inn allar viðkvæmar minjar. Ástæður fyrir því eru m.a. þannig að hægt sé að nota skönnunina við rannsóknir án þess að ganga á minjarnar sjálfar auk þess sem minjarnar varðveitast til frambúðar á tölvutækuformi.
Sérfræðingur í vopnum sýndi nemendum tvö gömul sverð auk örvarodda og hnífa. Annað sverðið var frá landnámsöld.
Þriðji sérfræðingurinn sýndi nemendum nokkur mannabein, lærleggi sem höfðu gróið eftir brot, höfuðkúpu manns sem hafði verið veginn með exi en hann fannst við fornleifauppgröft í Mosfellsdal.

Nemendur voru afar áhugasamir um starfsemi rannsóknarmiðstöðvarinnar  þó sumum hafi fundist erfitt að skoða mannabeinin.