Líf í borgarholtsskóla

10/11/2023 | Ritstjórn

Gestagangur í verknámi

Kynning frá Félagi blikksmiða

Kynning frá Félagi blikksmiða

Málm- og véltæknideild hefur fengið margar heimsóknir á síðustu dögum. Á föstudaginn fengu nemendur í lífsleikni í verknámi góða heimsókn frá félagi blikksmiða. Fengu nemendur kynningu á starfi blikksmiða og þeim fjölbreyttu og áhugaverðu verkefnum sem þeir fást við.

Á föstudag komu einnig fulltrúar frá FIT (Félagi iðn- og tæknigreina) ásamt ljósmyndara og blaðamanni. Þeir komu til að taka myndir og viðtöl fyrir tímarit félagsins sem verður gefið út um mánaðamótin. Heimsóttu þeir bílaiðngreinar, málm- og véltæknigreinar og pípulagnir.

Á fimmtudag komu fulltrúar frá fyrirtækjum í málm- og véltæknigreinum en þeir höfðu þegið boð skólans um að kynna sér aðstöðu, nám og kennslu í greinunum. Þeim var boðið að fara í tíma og tala við nemendur og kennara. Í heildina mættu tæplega 20 aðilar frá nokkrum fyrirtækjum, m.a. VHE, Rio Tinto á Íslandi, Brim, Marel, Héðni, Fratak og HD tækni. Að loknu áhorfi og spjalli við nemendur og kennara í kennslustundum var boðið upp á pítsu og spjall á kaffistofunni, þar sem farið var yfir rafræna ferilbók og ferli samninga samkvæmt nýju fyrirkomulagi. Einnig var rætt um hvernig hægt væri að vinna saman að því að efla og styrkja nám í málm- og véltæknigreinum og hvernig við sjáum fyrir okkur enn frekara samstarf á komandi árum. Þetta var frábær heimsókn og allir sammála um að þetta væri eitthvað sem ætti að vera fastur liður á hverri önn.